Fríða Dís með útgáfutónleika í Bergi
Fagnar útgáfu fyrstu sólóplötu sinnar
Fyrsta plata Fríðu Dísar, Myndaalbúm, er væntanleg þann 1. febrúar. Á plötunni verður að finna átta frumsamin lög með textum á íslensku og frönsku. Í hverju lagi vinnur hún úr ákveðinni minningu sem raðast saman líkt og ljósmyndir í albúmi. Rödd Fríðu fær að njóta sín í dreymandi hljóðheimi sem er drifinn áfram af hráum en þéttum bassaleik hennar sem á augljósar rætur í fyrstu áratugum rokksins.
Með Fríðu koma meðal annars fram Smári Guðmundsson á gítar, Stefán Örn Gunnlaugsson á píanó og syntha, Kristinn Snær Agnarsson á trommur, Óskar Guðjónsson á saxófón, Matthías Stefánsson á fiðlu og gítar og Óskar Þór Arngrímsson sér um áslátt. Platan verður flutt í heild sinni og skyggnst verður á bak við lögin og töfrana sem áttu sér stað í upptökuferlinu.
Tónleikarnir verða í Berginu, Hljómahöll, laugardaginn 15. febrúar 2020.